Ódýrara að flytja starfsemina út á land

Á íbúafundi um málefni HSu sem haldinn var á Selfossi í dag var samþykkt ályktun þar sem boðuðum niðurskurði er harðlega mótmælt.

Í frumvarpinu er lagt til að fjárframlög til sjúkrasviðs HSu muni lækka um 412 milljónir króna á næsta ári, eða nærri 57%.

„Lækkun sem þessi mun fela í sér gífurlega skerðingu á grunnþjónustu við íbúa á Suðurlandi, en skjólstæðingar HSU eru um 20.000 talsins. Verði niðurskurðaráformin að veruleika mun rekstur legudeildar, fæðingarþjónustu og skurðstofu leggjast af. Sýnt hefur verið fram á það með rökum að ódýrara er að flytja starfsemi frá Landspítala háskólasjúkrahúsi út á land heldur en að flytja þessa starfsemi á höfuðborgarsvæðið,“ segir í ályktuninni sem samþykkt var á fundinum.

„Fundurinn mótmælir niðurskurðaráformum þeim sem birtast í fjárlagafrumvarpi harðlega og skorar á þingmenn og ráðherra að koma í veg fyrir að þessi áform verði að veruleika. Fundurinn krefst þess að haft verði samráð við stjórnendur stofnunarinnar um hvernig megi hagræða í rekstri án þess að leggja niður lífsnauðsynlega grunnþjónustu. Þá skorar fundurinn á heilbrigðisráðherra að skoða verkefnaflutning frá Landspítala til HSu með tilliti til þess að lækka kostnað í heilbrigðiskerfinu,“ segir ennfremur í ályktuninni.

Fyrri grein„Við eigum að fæðast, veikjast og deyja í Reykjavík“
Næsta greinSamstöðufundur á árbakkanum á mánudag