Oddvitinn bænheyrður

Fjölmiðlar tóku á dögunum upp frétt Sunnlenska af fækkun í grunnskólanum á Kirkjubæjarklaustri. Í kjölfar fréttanna varð óvænt fjölgun í skólanum.

Guðmundur Ingi Ingason, oddviti Skaftárhrepps, sagðist í samtali við Ríkisútvarpið sjá fram á ýmsar hugsanlegar lausnir til að fjölga börnum í Skaftárhreppi, svo sem ástarviku og uppkaup á getnaðarvörnum í þorpinu. Gárungar hafa hins vegar bent á að sú leið sé torsótt vegna bágrar lausafjárstöðu sveitarfélagsins.

En náttúran gekk til liðs við skólann og oddvitann. Skyndilega fjölgaði um fimm í skólanum. Þröstur einn ákvað að nýta sér ónotað húsnæði skólans til hreiðurgerðar og liggur hann þar nú á fimm eggjum.