Oddviti vill áframhald á búskap

Stjórn Skálholts hefur boðað til íbúafundar vegna vinnu við nýtt deiliskipulag Skálholtsstaðar og framtíðarnýtingu Skálholtsjarðarinnar þriðjudaginn 23. febrúar næstkomandi. Fundurinn fer fram í Skálholtsskóla en þar verða kynnt áform og hugmyndir um framtíð jarðarinnar og kallað eftir umræðum.

Meðal þess sem tekið verður til umræðu á fundinum er framtíð búskapar á jörðinni Skálholti, en núverandi ábúendur hafa sagt upp samningi sínum um ábúð og hyggjast flytja austur í Hornarfjarðarsveit.

Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, segist persónulega vilja sjá áframhald á búskap á jörðinni, enda sé hún blómlegt höfuðból.

„Það er auðvitað nauðsynlegt að viðhalda jörðinn, túnum og girðingu og fleira,“ segir hann. Hann segir aðkomu sveitarinnar að málinu þó fyrst og fremst vera tengdt deiliskipulagi á staðnum. Umræður um framtíð Skálholts feli í sér ýmiskonar málefni, enda sé um að ræða blöndu af sögustað og ferðamannastað, og væntanlega sé slíkt samspil meðal þess sem skoða þarf vandlega til framtíðar.

Líkt og áður sagði er fundurinn haldinn 23. febrúar og hefst kl. 14:30 og er hann opinn öllum áhugasömum.