Óánægja með póstþjónustu í Skaftárhreppi

Sveitarstjórn Skaftárhrepps mótmælir harðlega skertri þjónustu Íslandspósts í dreifbýli. Hér eftir fá íbúar í dreifbýli í Skaftárhreppi póst einungis tvisvar í viku aðra hverja viku og þrjá daga hina vikuna.

„Já, okkur þykir heldur bratt skorin niður þjónusta við okkur af hendi Íslandspósts. Á tímum þar sem netkaup fara vaxandi og íbúar í dreifbýli treysta í auknum mæli á þjónustu póstsins með böggla og fleira, er þetta einkennilegur niðurskurður. Auðvitað er skiljanlegt að í ljósi netsamskipta skuli fækka bréfsendingum, en að sama skapi eykst umfang bögglapósts til muna,“ segir Eva Björk Harðardóttir, oddviti, í samtali við Sunnlenska.

Hún segir að í viðlíka dreifbýlli sveit eins og Skaftárhreppi, þá finni fólk að um verulega skerðingu á þjónustu er að ræða.

„Maður verður hugsi, hve lengi geta svona þjónustufyrirtæki skorið niður þjónustu við dreifbýlar byggðir og borið við sparnaði, einhvers staðar verður að setja punktinn ef á að halda Íslandi í byggð,“ bætir Eva Björk við.

Póstafgreiðslunni á Klaustri var lokað á síðasta ári en þá þegar skertist þjónusta Íslandspósts verulega í hreppnum.

Fyrri greinFSu þarf að vinna rest – og treysta á ÍR
Næsta greinÞórdís valin vallarstjóri ársins