Óánægðir geta farið fram á bætur hjá sveitarfélaginu

Breyta á landnotkun á um 5% lands í Byggðarhornslandi í Árborg, úr búgarðabyggð í athafnasvæði. Er þetta gert í þeim tilgangi að leyfilegt sé að reka bílapartasölu á svæðinu en fyrirtækið Netpartar hefur verið starfrækt þar um þriggja ára skeið.

Starfsleyfi fyrirtækisins er fallið úr gildi þar sem Umhverfisráðuneytið taldi ekki heimilt að vera með slíka starfsemi í umræddri búgarðabyggð. Íslandsbanki leysti til sín nánast allar óseldar lóðir í búgarðabyggðinni eftir að fyrirtækið sem keypti af ábúendum varð gjaldþrota. Síðar hefur raunar eigandi bílapartasölunnar keypt upp megnið af þeim lóðum.

Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar segir að unnið sé að því að hægt verði að gefa út starfsleyfi. Segir hún að sveitarfélagið hafi ekki verið aðili að máli sem höfðað var af hálfu íbúa í byggðinni, sem sætti sig ekki við starfsemi bílapartasölunnar.

Ásta segir að þeir aðilar sem eigi þarna lóðir og telji gengið á sinn grenndarrétt, og geti jafnframt sýnt fram á fjárhagslegt tjón af völdum þess að þarna hafi verið umrædd starfsemi hafi rétt til að sækja bætur til sveitarfélagsins á grundvelli skipulagslaga.

Fyrri greinMagdalena tók þriðja sætið
Næsta greinGlussi lak af rútu við Geysi