Öryggi hert í kjölfar óhapps

Í kjölfar alvarlegs óhapps á dögunum ætlar Landsnet að efna til kynningarherferðar um öryggismál og mikilvægi þess að tryggja að verktakar og aðrir framkvæmdaaðilar taki tillit til háspennumannvirkja við áhættugreiningu verkefna.

Óhappið sem um ræðir átti sér stað í lok nóvember þegar steypudælubóma sló út Hellulínu 2, 66 kV háspennulínu á Rangárflötum rétt suðaustan við þéttbýlið á Hellu, en þar standa yfir byggingaframkvæmdir við nýtt hótel. Engin slys urðu á fólki en dekk á dælubílnum skemmdist þegar bóman snerti línuleiðarana og leysti hún út í kjölfarið.

Mjög alvarlegt atvik
Atvikið, sem metið er mjög alvarlegt hjá Landsneti, var strax tilkynnt til lögreglunnar á Hvolsvelli og var tekin skýrsla af hluteigandi. Þegar ljóst var að hvorki hefðu orðið slys á fólki eða skemmdir á línunni var hún sett aftur í rekstur. Óhappið hafði ekki í för með sér straumleysi eða truflanir fyrir notendur á Suðurlandi.

Farið var yfir málsatvik og í kjölfarið ákveðið að efna til kynningarherferðar með þeim aðilum sem gefa út byggingarleyfi um öryggismál og mikilvægi þess að tryggja að allir framkvæmdaaðilar taki tillit til háspennumannvirkja við áhættugreiningu viðkomandi verkefnis.

Fundað um öryggismál
Öryggisstjóri Landsnets fór einnig yfir stöðu öryggismála almennt með fulltrúa aðalverktakans og í framhaldinu mættu svo öryggisstjóri og yfirmaður tæknimála hjá netrekstri til fundar með byggingarstjóra, verkstjórum og starfsmönnum verktakans. Þar voru kynntar ítarlega þær hættur sem fylgt geta vinnu í námunda við háspennt mannvirki, ásamt ábyrgð viðkomandi við slíkar aðstæður.

Fyrri greinFlutningur verkefna til Matvælastofnunar
Næsta greinFleiri áhorfendur en færri folöld