„Óþreytandi í boðskap sínum, fræðslu og hvatningu“

Sveinn Runólfsson, fyrrverandi Landgræðslustjóri, fékk í dag Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Verðlaunin voru veitt í tengslum við Dag íslenskrar náttúru, sem var í gær.

Við sama tilefni hlutu Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og fyrir myndefni, upplýsingar og greinaskrif um íslenska náttúru á síðustu tólf mánuðum.

Sveinn hlaut viðurkenninguna fyrir að hafa um áratuga skeið staðið í framvarðarsveit í baráttunni fyrir vernd og endurreisn vistkerfa landsins.

Segir í rökstuðningi ráðherra að Sveinn hafi helgað líf sitt þeirri hugsjón sinni að græða landið og tryggja sjálfbæra nýtingu þess.

„Ævistarf Sveins við vernd landkosta er afar fjölbreytt. Þegar það hófst var uppblástur og ofbeit í algleymingi og lítill skilningur á áhrifum beitar. Uppgræðslustarfið var erfitt á foksvæðunum og öllu fagnað sem gróið gat. Sveinn hefur verið óþreytandi í boðskap sínum, fræðslu og hvatningu, jafnt til stjórnvalda sem almennings. Hann hefur stuðlað að rannsóknum, fræðslu, stofnun landgræðslufélaga og fjölbreyttum samstarfsverkefnum með þátttöku bænda og almennings sem aukið hefur bæði landlæsi og afköst í landgræðslustarfinu.“

Fyrri greinSjö undir áhrifum fíkniefna við akstur
Næsta grein„Ætluðum að skemma partíið“