
Í dag undirrituðu Sölufélag garðyrkjumanna, Báran stéttarfélag og Framsýn stéttarfélag samstarfssamning sín á milli um vottunarmerkið Í góðu lagi. Merkið er nýtt vottunarkerfi sem staðfestir að vinnustaðir fari eftir kjarasamningum og almennum reglum vinnumarkaðarins.
Aðilar samkomulagsins hafa unnið að því að þróa vottunarkerfi byggt á trausti, gagnsæi og sanngirni. Hugmyndin felst í því að sýna með skýrum hætti að vinnustaðir fari eftir kjarasamningum og þeim leikreglum sem gilda almennt á vinnumarkaði.
Í framkvæmd verða vinnustaðir heimsóttir og farið yfir þau gögn sem til þarf en fyrir liggur metnaðarfullur verkferill sem nær til allra þátta er viðkemur framsæknum vinnustöðum.
Í fyrstu verður verkefnið tilrauna- og þróunarverkefni afmarkað við grænmetisframleiðslu en vonir standa til að vottunin Í góðu lagi geti náð útbreiðslu til fleiri greina ef vel tekst til enda um ákveðna fyrirmynd að ræða fyrir íslenskt atvinnulíf.
Þrjár garðyrkjustöðvar hafa nú farið formlega í gegnum vottunarferlið, garðyrkjustöðin Ártangi í Grímsnesi, Friðheimar í Reykholti og Hveravellir í Reykjahverfi og tóku eigendur og forsvarsmenn þeirra á móti sínum vottunarstaðfestingum í dag.

sem hafa hlotið vottun. Ljósmynd/Kristín Linda Sveinsdóttir