Nýtt tæki í baráttu fyrir bættu umferðaröryggi

Í síðustu viku var tekinn formlega í notkun færanlegur hemlaprófari sem lögregluliðin á Norðurlandi eystra, Suðurlandi og Vesturlandi ásamt dómsmálaráðuneytinu keyptu.

Þessi lögreglulið fara með umferðareftirlit er áður tilheyrði Samgöngustofu. Notkun á slíkum hemlaprófara er til þess fallið að auka umferðaröryggi og gefur lögreglunni kleift að sinna eftirlitinu með meiri fagmennsku.

Reglulegri skoðun ökutækja er ætlað að stuðla að auknu umferðaröryggi með því að tryggja að ökutæki sé í lögmætu ástandi til þess að hætta af notkun þess verði sem minnst.

Eftirlitið felur meðal annars fela í sér sjónskoðun á ástandi ökutækis í kyrrstöðu, könnun á nýlegu vegaskoðunarvottorði eða skoðunarvottorði frá síðustu skoðun ökutækisins á skoðunarstöð og skoðun hvort um vanbúið ökutæki sé að ræða. Í síðastnefnda atriðinu felst meðal annars skoðun á hemlabúnaði.

Hemlabúnaður er einn mikilvægasti öryggisþáttur hvers ökutækis og um leið viðhaldsþáttur sem ekki má vanrækja. Í vegaskoðunum hefur til þessa ekki verið mögulegt að skoða eða prófa hemlabúnað öðruvísi en með sjónskoðun en takmarkað er hversu mikið slík skoðun leiðir í ljós.

Við rýni á skýrslum Rannsóknarnefndar samgönguslysa hefur komið í ljós að oft á tíðum er hemlabúnaði áfátt sem og dekkjabúnaði og er oft orsakavaldur eða samverkandi þáttur þegar slys verða.

Með þessum nýja og öfluga hemlaprófara er lögregla mun betur í stakk búin til þess að kanna hemlabúnað bifreiða og víst er að hann styður okkur í baráttunni fyrir bættu umferðaröryggi sem er okkur öllum mjög mikilvægt.

Fyrri greinArndís og Írena dúxuðu á Laugarvatni
Næsta greinNiðurstaða íbúakosningar verður bindandi