Nýtt sneiðmyndatæki á HSU Selfossi

Undanfarna mánuði hafa miklar framkvæmdir staðið yfir á húsnæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi. Verið er að gera gagngerar endurbætur á neðri hæð norður álmunnar, sem hýst hefur myndgreiningar- og rannsóknardeild.

Matsalur starfsmanna var einnig í þessari álmu en við framkvæmdir í eldhúsi, sem lauk fyrr á þessu ári, fengu starfsmenn matsal á nýjum stað. Við þær tilfæringar losnaði talsvert pláss í norðurálmunni og því stækkar aðstaða rannsóknardeildarinnar til muna. Áætlað er að framkvæmdum á húsnæði þessara tveggja deilda ljúki nú í desember.

Á framkvæmdartíma hefur starfssemi rannsóknar haldist að fullu í bráðabirgða húsnæði í öðrum hluta hússins, en starfssemi myndgreiningardeildarinnar verið á sama stað, en hefur þurft að loka tímabundið hluta sinnar starfssemi.

Ákveðið var á sama tíma og húsnæðisframkvæmdir stóðu yfir að skipta út eldra sneiðmyndatæki og var keypt nýtt CT tæki fyrir myndgreiningardeildina. Tækið er keypt glænýtt að þessu sinni frá fyrirtækinu Toshba Medical og er mun tæknilegra en eldra tæki. Tækið er greitt úr gjafasjóð HSU og er uppsetning þess í höndum Rafarnarins. Tækið er komið í notkun og reynist vel.

Nýja CT tækið leysir af hólmi eldra tæki sem keypt var til HSU notað frá Landsspítala árið 2010, þá sjö ára gamalt og var það tæki gefið til stofnunarinnar af Líknasjóði Harðar Þorgeirssonar og Unnar Guðmundsdóttur.

Fyrri greinÞórsarar héraðsmeistarar í skák
Næsta grein„Gott að geta létt undir á þessum tíma“