Nýtt skip í siglingum milli lands og Eyja

Nýir aðilar stefna að siglingum milli Landeyjarhafnar og Vestmannaeyja í vetur, og hafa fengið til þess öll tilskilin leyfi og keypt skip til siglinganna.

Það er Sigurmundur Gísli Einarsson, eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Viking Tours í Eyjum sem stendur fyrir þessu. Hefur hann keypt skipið Víking, sem áður hét Ísafold, til flutningana, en báturinn er um 30 metra langur og getur tekið allt að 94 farþega í hverja ferð, en enga bíla.

Víkingur sigldi inn í Vestmannaeyjahöfn í fyrsta skipti á fimmtudagsmorgun.

Framundan eru breytingar á bátnum hjá Skipalyftunni, en setja þarf í það þil, svo hann fái svokallað b-leyfi.

„Við stefnum að fyrstu ferð í júlí, það er ekki eftir neinu að bíða,“ sagði Sigurmundur í samtali við Sunnlenska. Hann segist ekki verða í samkeppni við Herjólf, siglt verður á öðrum tímum og þetta sé í raun viðbót. Víkingur ristir nokkuð minna en Herjólfur sem getur verið hentugra varðandi dýpi við innsiglinguna í Landeyjarhöfn.

„Þetta skip ristir 2,6 metra, en til samanburðar ristir Herjólfur um 4,5 metra að mig minnir,“ segir Sigurmundur. „Þetta mun skipta miklu máli fyrir ferðaþjónustuna í Eyjum, einkanlega fyrir hótel og veitingastaði,“ bætir hann við.

Fyrri greinHamar skellti toppliðinu
Næsta greinJónsmessuhátíð í Hveragerði