Nýtt skálavarðahús í Hrafntinnuskeri

Ásýnd Hrafntinnuskers breyttist örlítið um síðustu helgi þegar nýju skálavarðahúsi var komið niður við hlið Höskuldsskála.

Nýja húsið er 40 fermetrar og breytir allri aðstöðu á svæðinu. Það mun hýsa gestamóttöku og híbýli skálavarða. í húsinu er eldhús og klósett fyrir skálaverði og einnig rúmgott svefnloft.

Ein mesta breytingin verður þó væntanlega sú að í húsinu er sturta fyrir skálaverði. Hingað til hafa skálaverðirnir sem stundum dvelja sumarlangt í Hrafntinnuskeri þurft að ganga annað hvort niður í Landmannalaugar eða í Álftavatn til að komast í sturtu og haft er fyrir satt að þeir séu orðnir viðlíka sveittir þegar þeir hafa gengið til baka eins og áður en þeir fóru!

Skálavarðahúsið var sett niður á sökkul sem var steyptur fyrir nokkrum árum vestan megin við núverandi skála, þ.e. í átt að gilinu og hverasvæðinu. Smíði hússins og flutningur á sinn stað gekk hratt og vel fyrir sig en byrjað var á smíðinni fyrir rétt rúmlega tveimur mánuðum.

Fóstrar í sjálfboðavinnu
Það eru þeir Daði Garðarsson og Ívar Arndal og hópur í kringum þá tvo sem hafa haft veg og vanda að smíðinni og flutningnum. Meirihluti verksins er unninn í sjálfboðavinnu. Daði og Ívar eru svokallaðir fóstrar Höskuldsskála og tóku við keflinu af Höskuldi Jónssyni, fyrrverandi forseta Ferðafélags Íslands.

Daði segir að veðurguðirnir hafi veitt blessun sína á flutninginn um síðustu helgi því eins og sést á meðfylgjandi myndum var allt marautt á svæðinu og lítið mál að flytja skálann og koma honum fyrir á sínum stað. Síðan þá hefur hins vegar snjóað mikið á Fjallabaki.

Á næstu vikum verður neysluvatn, rafmagn og hitaveita tengd frá Höskuldsskála og yfir í skálavarðahúsið. Næsta sumar er svo fyrirhugað að tengja skálana tvo með palli.

Frá þessu er greint á heimasíðu Ferðafélags Íslands