Nýtt merki Skaftárhrepps kemur betur út á prenti

Vilborg Anna Björnsdóttir hannaði nýja merkið á grunni þess gamla.

Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti á fundi sínum í desember að gera endurbætur á byggðamerki sveitarfélagsins.

Nýja byggðamerkið er hannað á grunni þess gamla, með færri litum og einfaldari línum. Eftir breytingarnar mun merkið henta betur til prentunar og framleiðslu á kynningarefni.

„Það er ekki vitað hver teiknaði merkið á sínum tíma og það var ekki til í almennilegu kerfi svo hægt væri að nota það í alla prentun. Það var því ákveðið að einfalda merkið og var Vilborg Anna Björnsdóttir, hönnuður, fengin í það verkefni,“ sagði Einar Kristján Jónsson, sveitarstjóri Skaftárhrepps, í samtali við sunnlenska.is.

Skaftárhreppur varð til við sameiningu fimm hreppa árið 1990 og á merkinu má sjá Lómagnúp, kríu og svo melgresi með fimm öxum, misstórum eftir stærð gömlu hreppanna sem sameinuðust á sínum tíma; Álftavershrepps, Leiðvallahrepps, Skaftártunguhrepps, Kirkjubæjarhrepps og Hörgslandshrepps.

Að sögn Einars verður nýja merkinu skipt út smátt og smátt með tímanum fyrir það gamla.

Gamla merkið hefur verið í notkun frá árinu 1990.
Fyrri greinJón Helgi nýr stjórnarformaður
Næsta greinFærði safninu einstaka bókargjöf