Nýtt kvikuskot í jöklinum

Ný kvika er að þrýstast upp neðst í gosrásinni í Eyjafjallajökli. Frá því á mánudag hefur verið aukin skjálftavirkni sem rakin er til þessa.

Nákvæm staðsetning skjálftanna sýnir að þeir fyrstu verða djúpt í jörðu, á um 23 km dýpi, en færast síðan upp. Þetta bendir að öllum líkindum til þess að ný kvika sé að þrýstast upp neðst í kvikurásinni og ýti við ofanáliggjandi kviku þannig að þrýstingsbreytingin færist upp að yfirborði. Því má búast við að gosið haldi áfram af fullum krafti næstu daga.

Verulegar breytingar hafa orðið á færslu GPS-stöðva umhverfis Eyjafjallajökul síðustu tvo sólarhringa. Á stöðvum BAS2 og STE2, sem eru rétt norðan jökulsins, má nú á ný greina færslu til norðurs. Sunnan jökulsins færist THEY nú til vesturs, og stöð FIM2, sem er nokkru austar, sýnir færslu til austurs.

Dreifing skjálftavirkni í kvikurásinni gefur jafnframt vísbendingar um staðsetningu kvikuhólfsins sem gosið hefur úr síðan 13. apríl, en talið er að það sé á um 3-5 km dýpi, þar sem skjálftar hafa ekki orðið.

Fyrri greinDrunur á Mýrum
Næsta greinHafa skilað 157 milljónum í ríkisjóð