Nýtt Íslandsmet í gróðursetningu

Sænski gróðursetningarmaðurinn William Kristiansson á Íslandsmetið í gróðursetningu. Ljósmynd: Skógræktin/Hreinn Óskarsson

Sænski gróðursetningarverktakinn William Kristiansson, sem starfar fyrir Gone West, setti á dögunum nýtt Íslandsmet í gróðursetningu trjáplantna þegar hann setti niður 17.732 birkiplöntur í Hekluskóga á einum sólarhring.

Verktakar frá Gone West hafa á síðustu vikum unnið að gróðursetningu á nokkrum svæðum og meðal annars sett niður um 300 þúsund birkiplöntur á Hekluskógasvæðinu.

Í frétt á heimasíðu Skógræktarinnar segir að þetta séu fyrsta flokks starfskraftar sem skila framúrskarandi verki, sem eykur mjög líkurnar á að plöntur lifi og nái að vaxa upp og mynda skóg.

Starfsmenn Skógræktarinnar og Landgræðslunnar hafa haft í nógu að snúast að flytja plöntur á gróðursetningarsvæðin í Hekluskógum þessar vikur enda afköst gróðursetningarfólksins mikil. Afköstin hafa komist upp í rúmlega 50 þúsund plöntur á dag þegar hæst lét.

Og William Kristiansson er ekki eini afreksmaðurinn á vegum Gone West. Aðrir starfsmenn hafa ekki látið sitt eftir liggja og einn daginn gróðursettu til dæmis tveir ónefndir starfsmenn þeirra yfir 10 þúsund plöntur hvor.

Fyrri greinBesti leikmaðurinn í bestu deild í heimi
Næsta greinAð skara eld að eigin köku -Tveggja bæjarstjóra Sveitarfélagið Árborg