Nýtt húsnæði fyrir frístundaskólann

Frístundaskólinn í Hveragerði mun innan tíðar flytjast um set þegar húsnæðið að Þórsmörk 1A verður tekið í notkun. Hveragerðisbær keypti húsnæðið fyrir 22 milljónir króna í byrjun janúar.

Nú vinnur hópur iðnaðarmanna hörðum höndum að því að gera húsnæðið þannig úr garði að það henti starfsemi frístundaskólans.

Verið er að lagfæra rafmagn og lýsingu, múrviðgerðir og málun er í fullum gangi og í byrjun næstu viku verður hafist handa við að lagfæra lóðina og tengja hana við lóð hins hússins sem hýsa mun Frístundaskólann við Fljótsmörk.

Með þessari breytingu standa vonir til þess að starfsemin verði skilvirkari og að möguleikar á skemmtilegu starfi eftir skólatíma muni aukast til muna.