Nýtt hljóðkerfi keypt í íþróttamiðstöðina

Stuðningsmenn Þórs, líklega að benda á að gamla hljóðkerfið hafi verið komið að fótum fram. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarráð Ölfuss hefur samþykkt að kaupa nýtt hljóðkerfi í íþróttasal íþróttamiðstöðvarinnar í Þorlákshöfn, sem kostar rúmar 7,6 milljónir króna upp komið.

Á síðasta fundi bæjarráðs var samþykkt tilboð í nýtt hljóðkerfi í íþróttahús og fimleikasal en í minnisblaði íþrótta- og æskulýðsfulltrúa kemur fram að gamla kerfið sé komið að fótum fram, enda orðið um það bil þrjátíu ára gamalt. Brýnt sé að fara í endurnýjun á því, auk þess sem setja þarf upp hljóðkerfi í nýju viðbyggingunni sem mun hýsa fimleikaaðstöðu. 

Þrjú tilboð bárust í nýtt hljóðkerfi. Origo bauð 4,5 milljónir króna, Feris rúmar 4,9 milljónir króna og Exton 5,6 milljónir króna. Ennfremur lá fyrir tilboð í vinnu við uppsetningu frá Fast ehf upp á rúmar 2,7 milljónir króna.

Bæjarráð samþykkti að taka tilboði Feris en það þótti passa mjög vel við þær forsendur sem lagt var upp með, einfaldast í uppsetningu og býður upp á mikinn sveigjanleika. Samtals er því áætlaður kostnaður við tækjakaup og uppsetningu rúmar 7,6 milljónir króna.

Fyrri greinSigríður vann tvær greinar á héraðsmóti fatlaðra
Næsta greinAnd­lát: Loft­ur Þor­steins­son