Nýtt hjúkrunarheimili rís í Hveragerði

Hveragerði. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Ríkið hefur samþykkt að byggja nýtt 18 rúma hjúkrunarheimili í Ási í Hveragerði. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist um mitt næsta ár.

Unnið hefur verið að málinu í þónokkurn tíma í góðu samstarfi bæjarfélagsins og forsvarsmanna Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Áss hér í Hveragerði. Verkið verður unnið í samstarfi ríkisins og Hveragerðisbæjar en bærinn mun greiða 15% af byggingarkostnaðinum. Áætlaður framkvæmdatími er um tvö ár og mun heildarkostnaðurinn nema um það bil 800 milljónum króna.

Nýja heimilið verður byggt gegnt Bæjarási og hjúkrunarheimilinu, norðan Hverahlíðar og þurfa nokkur eldri hús að víkja vegna þess. Stefnt er að því að tengja eldra hjúkrunarheimili við það nýja með göngum undir Hverahlíð.

Einnig hefur verið samþykkt að ráðast í endurbætur á gamla hjúkrunarheimilinu sem tekið var í notkun 1998, með þeim hætti að tvíbýlunum sem þar eru verður breytt í einbýli með sér baðherbergi.

Fyrri greinLögðu hald á kannabisplöntur og umtalsvert magn af reiðufé
Næsta greinUrriðadans í Öxará