Nýtt hjúkrunarheimili reist í Árborg

Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hefur fallist á framkvæmdaáætlun heilbrigðisráðherra sem felur í sér byggingu nýs hjúkrunarheimilis fyrir aldraða í Árborg.

Samkvæmt áætluninni verða byggð þrjú ný hjúkrunarheimili, tvö á höfuðborgarsvæðinu og eitt í Árborg. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hefur verið horft til lóðar sem Sveitarfélagið Árborg á í Hagalandi á Selfossi.

Áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma miðast við að reist verði hjúkrunarheimili með 50 rýmum á Árborgarsvæðinu. Að hluta til leysa þessi rými af hólmi eldri rými á svæðinu þar sem markmiðið er að bæta aðbúnað aldraðra en 15 rýmanna verða hrein viðbót við fjölda hjúkrunarrýma á svæðinu.

Fjármögnun fyrirhugaðra framkvæmda
Hjúkrunarheimili sem byggð hafa verið á síðustu árum hafa flest verið fjármögnuð með svokallaðri leiguleið þar sem sveitarfélögin standa að og fjármagna framkvæmdir en framlag ríkisins felst í leigugreiðslum sem telst ígildi stofnkostnaðar.

Áætlunin sem hér er kynnt byggist aftur á móti á hefðbundinni fjármögnunarleið þar sem 40% stofnkostnaðar rennur úr Framkvæmdasjóði aldraðra, ríkissjóður greiðir að hámarki 45% og sveitarfélögin að lágmarki 15%.

Áætlaður heildarkostnaður við uppbyggingu hjúkrunarheimilanna þriggja nemur 5,5 milljörðum króna.

Á Suðurlandi standa yfir framkvæmdir vegna byggingar nýrrar hjúkrunarálmu við hjúkrunarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli og Lund á Hellu. Þær nýkvæmdir munu einnig bæta mjög aðbúnað þeirra sem búa á þessum heimilum.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segist afar ánægður með að geta loksins kynnt framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarheimila með umtalsverðri fjölgun rýma þar sem þörfin er brýnust: „Þetta er fyrsta skrefið í áætlunargerð sem ég mun að sjálfsögðu vinna með áfram í samræmi við skynsamlega forgangsröðun og þörf fyrir frekari uppbyggingu á landsvísu.“