Nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi boðið út í næstu viku

Fyrstuverðlaunatillöguna áttu Urban arkitektar ehf. og LOOP architects aps.

Gert er ráð fyrir að nýtt hjúkrunarheimili í Árborg verði auglýst til útboðs í næstu viku. Húsið mun rísa á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við Árveg á Selfossi.

Sigurður Norðdahl, verkfræðingur og verkefnastjóri hjá Framkvæmdasýslu ríkisins, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is.

Verkið hefur átt talsverðan aðdraganda en í september 2016 skrifuðu Sveitarfélagið Árborg og Velferðarráðuneytið undir samning um byggingu hjúkrunarheimilisins. Í október árið 2017 voru tilkynnt úrslit í hönnunarsamkeppni um húsið og við sama tækifæri var undirritaður samningur milli ríkis og Sveitarfélagsins Árborgar að stækka heimilið úr fimmtíu í sextíu dvalarrými.

Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna var tæplega 1,7 milljarðar króna árið 2017. Ríkissjóður og Framkvæmdasjóður aldraðra munu greiða 84% af kostnaðinum en Sveitarfélagið Árborg mun greiða 16% af áætluðum kostnaði.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við hjúkrunarheimilið verði lokið sumarið 2021 og að hægt verði að taka það í notkun með haustinu 2021.

Fyrri greinForsætisráðherra heimsótti Ölfus
Næsta greinNaumt tap gegn toppliðinu