Nýtt fangelsi óstaðsett í útboði

Það verður ekki gert að skilyrði í útboði vegna nýs fangelsins að það rísi á höfuðborgarsvæðinu, að sögn innanríkisráðuneytisins.

Stefnt er að því að ljúka gerð útboðslýsingar fyrir nýtt fangelsi um miðjan febrúar en vinna við hana stendur nú yfir hjá Framkvæmdasýslu ríkisins.

Ráðuneytið fékk Deloitte FAS til að leggja mat á kostnaðarauka Fangelsismálastofnunar og lögreglu ef nýtt fangelsi yrði staðsett í tiltekinni fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu í stað þess að hafa það á Hólmsheiði eða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Í minnisblaði Deloitte, sem birt er á vef innanríkisráðuneytisins, er tekið dæmi af fangelsi í 55 km fjarlægð frá Hólmsheiði, sem er jafnlangt og austur á Litla-Hraun.

Kostnaðaraukinn sem hlýst af því að hafa gæsluvarðhaldsfangelsi í 55 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu nemur rúmum 26 milljónum á ári eða tæplega 2,3 milljónum á mánuði. Yfir 40 ára tímabil er þessi kostnaðarauki núvirtur 584 milljónir.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.