Nýtt dæluskip kemur í næstu viku

Reiknað er með að sandæluskipið Skandia komi til landsins í lok næstu viku og hefji í framhaldinu sanddælingu úr Landeyjarhöfn.

Mæling sem Siglingastofnun lét gera við höfnina fyrir helgi bendir til að dýpi sé þar nú meira en búist var við.

Herjólfur hefur ekki siglt inn í Landeyjarhöfn undanfarna daga. Siglingastofnun hefur samið við Íslenska gámafélagið um dælingu úr höfninni, en það ætlar að nota nýtt skip, Skandia, til verksins. Þetta skip er mun öflugra en Perlan sem notast hefur verið við til þessa. Skandia getur líka athafnað sig í meiri ölduhæð en Perlan.

Í frétt á www.eyjafrettir.is kemur fram að Skandia fari í skoðun í Danmörku á mánudag og stefnt sé að því að skipið verði komið til landsins fyrir vikulok.

Fram kemur einnig í fréttinni að Siglingamálastofnun hafi látið kanna dýpi við Landeyjarhöfn fyrir helgi og þá hafi komið í ljós að grynnst punkturinn við höfnina sé 4 metrar. Haft er eftir Sigurði Áss Grétarssyni hjá Siglingastofnun þetta komi á óvart. Staðan sé góð austan við hafnarmynnið, en grunnt sé vestan við það. Hann telur að það þurfi ekki að taka nema um tvo daga að opna höfnina þegar Skandia getur byrjað á verkinu.