Nýsköpunarakademía ferðaþjónustunnar sett á fót

Arnbjörn Ólafsson, forstöðumaður Nýsköpunarsviðs Keilis, Þórir Erlingsson, verkefnastjóri hjá Keili, Þuríður Halldóra Aradóttir Braun, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, staðfesta stofnun akademíunnar. Ljósmynd/Aðsend

Markaðsstofa Reykjaness, Íslenski ferðaklasinn og Keilir – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, hafa undirritað samkomulag um stofnun Nýsköpunarakademíu ferðaþjónustunnar.

Með stofnun akademíunnar verður til sameiginlegur vettvangur ferðaþjónustu, menntastofnana og hagsmunaaðila til að efla nýsköpun, fræðslu, endurmenntun og tengslanet, ásamt því að stuðla að framþróun, sjálfbærni og ábyrgri ferðaþjónustu sem og þverfaglegum innlendum og erlendum samstarfsverkefnum.

Fjölbreytt námsframboð fyrir ferðaþjónustuna
Meðal fyrstu verkefna  hinnar nýstofnuðu Nýsköpunarakademíu ferðaþjónustunnar verður að þróa úrræði fyrir fyrirtæki og einstaklinga úr greinum ferðaþjónustunnar, með áherslu á aðgengi að fjölbreyttum námskeiðum. Nú þegar hefur verið farið af stað með gerð á annan tug hagnýttra námskeiða sem munu auka færni og þekkingu þeirra sem tengjast ferðaþjónustu og hafa hug á vinnu við greinina í framtíðinni. Sérstaklega verður hugað að þeim einstaklingum sem hafa misst vinnu í kjölfar erfiðleika í ferðaþjónustunni undanfarið. Fyrirhugað er að kennsla hefjist í byrjun janúar og verða námskeiðin kennd í fjarnámi bæði á ensku og íslensku.

Staðsett á Ásbrú en markhópurinn á landinu öllu
Nýsköpunarakademía ferðaþjónustunnar verður til húsa í frumkvöðlasetrinu Eldey sem er staðsett í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ. Áhersla verður lögð á að vera leiðandi aðili í fjarnámsframboði fyrir ferðaþjónustuna og tryggja aðgengi sem flestra að námskeiðum, upplýsingafundum og fræðslu.

Eyrbekkingurinn Þórir Erlingsson, verkefnastjóri hjá Keili, mun halda utan um verkefnið. Hann er með meistaragráðu í International Hospitality and Tourism Management frá Háskólanum í Suður-Karolínu í Bandaríkjunum, tók þátt í þróun áfanga í sjálfbærni og ferðaþjónustu við Kennesaw State University í Atlanta og hefur kennt í ferðamáladeild Háskólans á Hólum frá árinu 2017.

Fyrri greinKebabvagninn opnar í dag
Næsta greinKarína bauð lægst í jarðvinnu við Stekkjaskóla