Nýráðningar hjá Icelandic Water Holdings

Colin Tan, Raymond Thu og Tryggvi Harðarson.

Icelandic Water Holdings hefur ráðið til starfa Raymond Thu, fjármálastjóra í Los Angeles, Colin Tan, lögmann í London og Tryggva Harðarson, framkvæmdastjóra á Íslandi.

Raymond á að baki yfir tveggja áratuga farsælan starfsferil af alþjóðlegum drykkjavörumarkaði og mun reynast öflugur liðsauki í uppbyggingu Icelandic Glacial vörumerkisins á heimsvísu.

„Ray kemur til okkar með dýrmæta reynslu, hann býr yfir sérþekkingu á okkar sviði, af tekjustýringu og viðskiptaþróun hjá heimsþekktum drykkjavöruframleiðendum“ segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður og annar stofnenda Icelandic Water Holdings. „Hann hefur sýnt einstaka hæfni til að vinna í hröðu nýsköpunar- og frumkvöðla-starfsumhverfi og við erum hæstánægð með að fá hann til liðs við okkur,“ segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður IWH, í fréttatilkynningu.

Colin Tan hefur starfað í 20 ár í einkageiranum í London. Hann hefur varið meirihluta síns lögmannsferils í verkefnum fyrir alþjóðlega fjárfestingabanka og séreignarsjóði, í Bandaríkjunum og Evrópu, í tengslum við viðskipti með fyrirtæki í matvæla og veitingageira í Asíu og Evrópu, sem og eignasöfn. Hann sérhæfir sig í millilandaviðskiptum og er öllum hnútum kunnugur hvað varðar viðskiptasamninga á heimsvísu.

„Colin hefur undanfarin 3 ár komið að í langtímafjármögnun félagsins og þekkir vel til bæði fjármála og allrar starfssemi félagsins. Hann er mjög mikilvæg viðbót við teymið í þeirri vinnu sem nú á sér stað varðandi fjárhag og viðskiptaþróun félagsins til framtíðar,“ segir Jón.

Tryggvi Harðarson kemur til starfa sem framkvæmdastjóri vatnsverksmiðju Icelandic Water Holdings að Hlíðarenda í Ölfusi. Tryggvi hefur yfir 20 ára reynslu hjá Coca Cola og hefur yfirgripsmikla rekstrarreynslu með áherslu á innkaup, framleiðslu, áætlanagerð og vörustjórnun ásamt því að hafa leitt umbótavinnu undanfarin tvö ár.

„Tryggvi er mikill liðsstyrkur, hann hefur fjölbreytta reynslu sem kemur til með að nýtast okkur vel í örum vexti sem leiðandi framleiðandi á úrvals drykkjarvatni á alþjóðavísu,“ segir Jón ennfremur í tilkynningunni.

Fyrri greinSuðurlandsvegur: Búið að opna
Næsta greinBjörgunarsveitir kallaðar út vegna fastra bíla