Nýr verkefnastjóri þjónustumiðstöðvar

Sigrún Árnadóttir hefur tekið við sem verkefnastjóri fyrir þjónustumiðstöð vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Sigrún tekur við af Vagni Kristjánssyni og Guðmundi Inga Ingasyni, sem voru verkefnastjórar þjónustumiðstöðvanna á Heimalandi og í Vík.
Fyrst um sinn mun Sigrún starfa á skrifstofu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð en jafnframt mun hún starfa að hluta ýmist á Kirkjubæjarklaustri, í Vík, Heimalandi eða á Hvolsvelli. Meginverkefni hennar er að sinna eftirmálum eldgossins í Eyjafjallajökli sem snúa að sveitarfélögum, íbúum og uppbyggingarstarfi.

Þjónustan er opin öllum þeim sem hafa orðið fyrir áhrifum og þurfa aðstoð vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Sigrún verður tengiliður ráðuneyta og undirstofnanna þeirra við sveitarfélög og almenning.

Sigrún starfaði um langt árabil hjá Rauða krossi Íslands, lengst af sem framkvæmdastjóri. Síðustu ár hefur hún verið í framhaldsnámi og rekið eigið ráðgjafarfyrirtæki. Hægt er að hafa samband við Sigrúnu í síma 861 7683 eða í gegnum netfangið sigruna@rls.is.