Nýr veitingastaður í mathöllina í stað Smiðjunnar

Andri Björn Jónsson og Árni Evert Leósson. Ljósmynd/Mjólkurbúið - The Old Dairy Selfoss

Nýr hamborgara- og kjúklingastaður mun opna í Mjólkurbúinu á Selfossi á nýju ári og kemur í stað Smiðjunnar Brugghúss.

Það eru þeir Andri Björn Jónsson og Árni Evert Leósson sem standa að nýja staðnum, en hann hefur ekki ennþá hlotið nafn. Andri og Árni þekkja vel til í mathöllinni því þeir reka þar tvo vinsæla staði, Takkó og Pasta Romano.

„Við munum byggja á sama grunni og Smiðjan, halda áfram að bjóða úrvals hamborgara og kjúkling en með nokkrum áherslubreytingum. Þótt við höfum ekki heilt brugghús á bakvið okkur, þá verðum við með mikið úrval af bjór”, segja þeir Andri og Árni. „Þetta fyrsta ár í Mjólkurbúinu hefur verið mjög spennandi og við sjáum mikil tækifæri framundan með því að stækka reksturinn og auka fjölbreytnina.“ Þess má geta að Andri og Árni eru einnig að opna Takkó stað í hinni nýju Kúmen mathöll í Kringlunni í Reykjavík.

Ræturnar eru í Vík
Þórey Richard Úlfarsdóttir framkvæmdastjóri og einn eigenda Smiðjunnar Brugghúss, segir það hafa verið mikið ævintýri að taka þátt í uppbyggingunni í miðbænum, en nú sé kominn tími á breytingu. „Þetta hefur verið skemmtilegur tími en hér í Vík í Mýrdal eru okkar rætur og framundan er mikil uppbygging á starfsemi okkar hér, bæði með stækkun á framleiðslu og í aukinni þjónustu við ferðamenn. Við einfaldlega sáum ekki fram á að geta sinnt staðnum á Selfossi með þeim hætti sem við hefðum viljað og þegar færi gafst á að koma rekstrinum í hendur annara þótti okkur það vera skynsamlegasta niðurstaðan,“ segir Þórey.

Smiðjan starfar áfram í Mjólkurbúinu í óbreyttri mynd fram yfir jól og nýir staðir opna síðan strax á nýju ári.

Fyrri greinJóhannes ráðinn framkvæmdastjóri Auðhumlu
Næsta greinFlóaskóli sigraði í Eftirréttakeppni grunnskólanna