Nýr vegur opnar eftir þrjár vikur

Byrjað er að malbika nýja veginn yfir Lyngdalsheiði en stefnt er að því að hann verði opnaður fyrir umferð eftir rúmar þrjár vikur.

Þegar komið er frá Þingvöllum verður frá haustinu ekki lengur beygt við Gjábakka á leið til Laugarvatns heldur ekið áfram fjóra kílómetra í suðurátt en nýi vegurinn tekur svo við á móts við Miðfell. Tuttugu manna vinnuflokkur frá A.Þ. vélaleigu er á lokasprettinum í vegagerðinni og hefur nú fengið tíu manna slitlagsflokks frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða í malbikslögnina.

Þótt leiðin styttist ekki munu aksturstíminn, öryggið og þægindin breytast. Í stað þess að vera 15-20 mínútur að hossast í ryki á hlykkjóttum og holóttum malarvegi verða menn ekki nema um 10 mínútur að skjótast um nýju Lyngdalsheiðina, eftir breiðum og beinum veginum, sem auk þess mun ekki lokast í fyrstu snjóum í vetur.

Stefnt er að því að opna veginn þann 20. september en hann er 15 kílómetra langur.

Það eru blendnar tilfinningar gagnvart verklokum hjá vegagerðarmönnunum. Þeir eru allir með uppsagnarbréf í vasanum og alger óvissa framundan með atvinnu.

Vísir greindi frá þessu.