Nýr vefur Árborgar í loftið

Sveitarfélagið Árborg opnaði nýja heimasíðu í gær. Ákveðið hefur verið að íbúar verði hafðir með í ráðum á lokaskrefum í hönnun vefsins.

Í því skyni eru sett ábendingarform á allar síður þar sem kallað er eftir ábendingum íbúa. Þessum ábendingum verður safnað saman og þær notaðar strax til úrbóta og fullhönnun vefsins.

„Það er einlæg ósk Sveitarfélagsins Árborgar að þessi nýju vefur verði íbúum og sveitarfélaginu til gagns og flýti fyrir frekari framþróun þjónustunnar. Þjónusta við íbúana og upplýsingagjöf til þeirra þarf að verða eins góð og framast er unnt – og sniðin að þörfum íbúa. Á leið til betri þjónustu mun starfsfólk sveitarfélagsins og þekking þess, hugmyndir íbúanna og tækifæri stafrænnar þróunar leiða okkur áfram,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Árborgarvefurinn var unninn í samstarfi við Hugsmiðjuna en fjöldi starfsmanna sveitarfélagsins lagði líka sitt af mörkum við gerð nýja vefsins. Ólafur Rafnar Ólafsson, atvinnu- og viðburðafulltrúi Árborgar, leiddi vinnuna fyrir hönd sveitarfélagsins.

Fyrri greinSveitarfélögin haldi aftur af gjaldskrárhækkunum og sýni ábyrgð
Næsta greinSíðasti séns – leiðsögn og sýningarstjóraspjall