Nýr traktor býður Krossánni byrginn

Árnar sem verða á vegi ferðalanga á leið í Þórsmörk eru illræmdir geðvonskupúkar sem geta bólgnað út af minnsta tilefni og gleypt heilu rúturnar ef sá gállinn er á þeim.

Aðallega eru það Krossáin og Hvannáin sem verða stundum illvígar við að eiga en Jökulsáin og Steinholtsáin hafa líka átt sín reiðiköst.

Traktorinn Freddi Ford, sem hefur þjónað Ferðafélagi Íslands í glímunni við þessa farartálma síðastliðinn 15 ár, hefur fyrir löngu sannað gildi sitt sem eitt helsta björgunartæki landsins. Freddi hefur verið notaður til að bjarga verðmætum og koma í veg fyrir slys og hefur aðstoðað bæði rútur á jeppa yfir árnar, nánast á hverjum degi yfir sumartímann.

Engan skyldi því undra að Freddi hafi verið orðinn vígamóður og í upphafi sumars réðst FÍ því í það verk að kaupa nýjan traktor. Fyrir valinu var finnskur þjarkur af gerðinni Valtra D140, 10 tonna öflugur dráttarklár sem þykir henta vel til að vinna í vatni og er alls 36 gíra!

Hinn finnski Valtra er þegar tekinn til starfa í Langadal í Þórsmörk og vekur aðdáun ferðalanga fyrir þokka og dugnað í baráttu við árnar sem hafa verið nokkuð illskeyttar síðustu daga eftir miklar rigningar að undanförnu.

Frá þessu er greint á heimasíðu FÍ.

Fyrri greinStokkseyri krækti í stig
Næsta greinMenningarveislan hefst um helgina