
Nýtt tölvusneiðmyndatæki (CT) hefur verið tekið í notkun á röntgendeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi. Tækið, sem þegar hefur verið tekið í notkun, mun flýta fyrir daglegu starfi, einfalda rannsóknarferla og bæta upplifun sjúklinga.
Nýja tækið er af gerðinni GE Revolution Ascend sem er háþróaður skanni sem einfaldar vinnuflæði, bætir myndgæði og dregur úr geislun.
Með tilkomu nýja tækisins er hægt að ná betri myndgæðum með minni hávaða, hraðari og nákvæmari skönnun.
Aðalbjörg Skarphéðinsdóttir, deildarstjóri á röntgendeild, segir að tækið reynist vel.
„Starfsfólk myndgreiningardeildar er mjög ánægt með tækið. Það er gott að læra á það, notendavænt og allar keyrslur eru að taka styttri tíma en á gamla tækinu, sem er mjög mikilvægt fyrir okkur, sérstaklega þar sem hingað koma inn alls konar slys og jafnvel hópslys, sem erfitt hefur verið að sinna á stuttum tíma þar sem gamla tækið þurfti tíma til að kæla sig niður eftir stórar rannsóknir,“ segir Aðalbjörg.
Tækið býður upp á sjálfvirkar stillingar og hraðari skönnun sem gerir starfsfólki kleift að afla hágæða mynda á stuttum tíma, jafnvel við krefjandi klínískar aðstæður. Tölvusneiðmyndartækið er þróað með því markmiði að bæta þægindi sjúklinga, en tækið er hljóðlátt og bæði hringurinn og borðið sem sjúklingar liggja á hafa stækkað töluvert.
