„Nýr“ Þristur fluttur á Sólheimasand

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þessa stundina er verið að flytja gamla Douglas-3 flugvél, svokallaðan Þrist, landleiðina frá Keflavíkurflugvelli austur á Sólheimasand í Mýrdal.

Landeigendur að Sólheimasandi keyptu vélina á dögunum og hyggjast koma henni fyrir á sandinum. Þar er fyrir annað flugvélarflak af sömu tegund, sem er einn af aðsóknarmestu ferðamannastöðum landsins. Sú vél nauðlenti á sandinum árið 1973.

„Nýja“ vélin var flutt í kvöld um Suðurstrandarveg, yfir Óseyrarbrú, upp Eyrarbakkaveg og inn á Gaulverjabæjarveg og þaðan inn á Þjóðveg 1 austan við Selfoss. Ferðalagið gengur vel fyrir sig en flugvélin var við Selfoss laust fyrir klukkan 1 í nótt. Bílalestin er í lögreglufylgd og veitir ekki af því að loka leiðinni því farmurinn er nokkuð breiður eins og sjá má á myndunum hér að neðan.

Flugvélin TF-ISB var síðast í loftinu fyrir um 50 árum hjá Flugfélagi Norðurlands en áður var hún í eigu Flugfélags Íslands. Hún hefur safnað ryki í flugskýli í Keflavík síðustu áratugina.

Bílalestin á Eyrarbakkavegi kl. 00:42 í nótt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Vængir vélarinnar eru fluttir hvor á sínum vörubílnum í humátt á eftir skrokknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Þristurinn á ferð um Sandvíkurhreppinn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinStöngin inn hjá Árborg – Hamar tapaði sjötta leiknum
Næsta greinTímamótasamningur um verklega kennslu slökkviliðsmanna í útkallsstarfi