Nýr tankur og lagnir auka afköst og afhendingaröryggi

Haraldur Eiríksson, Bjarni Jón Matthíasson, Elínborg Sváfnisdóttir og Guðni G. Kristinsson tóku fyrstu skóflustungurnar. Ljósmynd/Rangárþing ytra

Í síðustu viku var fyrsta skóflustungan tekin að nýjum miðlunartank í Hjallanesi og vatnslögnum frá Lækjarbotnum niður að Bjálmholti sem stækka Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps.

Það voru þau Haraldur Eiríksson stjórnarformaður, Bjarni Jón Matthíasson fyrrum veitustjóri, Elínborg Sváfnisdóttir bóndi í Hjallanesi og Guðni G. Kristinsson núverandi veitustjóri sem tóku fyrstu skóflustungurnar.

Með þessum framkvæmdur er verið að auka til muna afköst vatnsveitunnar og afhendingaröryggi. Þessi áfangi sem nú er ráðist í felur í sér að reistur verður 400 m3 miðlunartankur í svokallaðri Fögrubrekku sem stendur það hátt að vatn verður sjálfrennandi nánast um allt þjónustusvæði veitunnar. Auk þess samtengjast veiturnar í Lækjarbotnum og Bjálmholti sem tryggir afhendingaröryggi.

Auk miðlunartanksins verður um að ræða 8,5 km af vatnslögnum í þessum áfanga. Verktaki er Þjótandi ehf og er kostnaður við verkið 178 milljónir króna. Miðað er við verkloka þann 1. nóvember 2021.

Fyrri greinÚtgáfuhóf í Skógum
Næsta greinRófukaffi á lokadegi sýningar