Nýr sýslumaður og lögreglustjóri hafa tekið til starfa

Nýtt embætti lögreglustjórans á Suðurlandi tók til starfa nú á miðnætti sem og nýtt embætti sýslumannsins á Suðurlandi.

Embætti lögreglustjórans á Selfossi og lögreglustjórans á Hvolsvelli hafa verið nú verið lögð niður. Það sama gildir um embætti sýslumannana á Höfn, í Vík, á Hvolsvelli og á Selfossi.

Anna Birna Þráinsdóttir er nýr sýslumaður á Suðurlandi. Daglegir stjórnendur á skrifstofum embættisins verða Ragnheiður Högnadóttir í Vík, Sigurður Bjarnason á Selfossi og Kristín Þórðardóttir á Hvolsvelli, en Kristín verður jafnframt staðgengill sýslumanns. Auglýst hefur verið eftir löglærðum fulltrúa fyrir skrifstofuna á Höfn.

Allar skrifstofur fyrri sýslumannsembætta verða opnar og starfsfólk verður það sama en allar skrifstofurnar verða opnar frá kl. 9 til kl. 15 alla virka daga. Skrifstofur sýslumannsins á Suðurlandi verða lokaðar 2. janúar vegna uppfærslu á tölvukerfum og búast má við skertri þjónustu eða töfum af sömu sökum mánudaginn 5. janúar.

Að sögn Önnu Birnu hefur mikil jákvæðni og eindrægni ríkt í starfsmannahópi embættisins um að láta breytinguna ganga upp og að veitt verði góð þjónusta á öllum skrifstofum eins og verið hefur.

Eitt stærsta lögregluumdæmi landsins
Kjartan Þorkelsson er nýr lögreglustjóri á Suðurlandi og verða höfuðstöðvar embættisins á Hvolsvelli. Oddur Árnason verður yfirlögregluþjónn embættisins, Sveinn Kristján Rúnarsson verður yfirlögregluþjónn almennrar deildar og Þorgrímur Óli Sigurðsson verður aðstoðaryfirlögregluþjónn rannsóknardeildar. Gunnar Örn Jónsson verður yfirmaður ákærusviðs, sem staðsett verður á Selfossi og einnig staðgengill lögreglustjóra.

Umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi verður eittt það stærsta á landinu, rúmir 24.000 ferkílómetrar. Það nær frá Seljubótarnefi í Krísuvíkurbjargi í vestri, að Hvalnessskriðum í austri og með vatnaskilum á Kili og inn að Nýjadal á Sprengisandsleið í norðri. Íbúar umdæmisins eru um 22 þúsund talsins og lögreglumenn í umdæminu eru 37, auk héraðslögreglumanna. Sex aðrir starfsmenn heyra undir skrifstofu lögreglustjóra og verða þeir staðsettir á Hvolsvelli og í Vík.

Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri, segir að stækkun og fækkun lögregluembætta eigi að leiða til styrkingar lögregluliða og þar með auka skilvirkni í löggæslu. Íbúar umdæmisins muni í sjálfu sér ekki finna fyrir miklum breytingum í fyrstu en þó stækki það svæði sem hafi aðgang að sólarhringsvakt lögreglunnar.

Fyrri greinGleðilegt nýtt ár!
Næsta greinGóðar gjafir til heilsugæslunnar Laugarási