Nýr samningur tryggir öflugra starf

Einar Kristján Jónsson sveitarstjóri og Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri SASS við undirskrift samningsins. Mynd/SASS

Fulltrúar SASS, þær Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri og Lína Björg Tryggvadóttir verkefnastjóri, heimsóttu Skaftárhrepp á dögunum. Tilefni ferðarinnar var meðal annars undirritun nýs samnings um starf byggðaþróunarfulltrúa í sveitarfélaginu.

Um er að ræða samstarfsverkefni SASS og Skaftárhrepps og standa þeir aðilar straum af kostnaði í sameiningu. Með nýja samningnum eru tekin mikilvæg skref til að efla byggðaþróun á svæðinu.

Unnur Blandon, sem hefur sinnt starfi byggðaþróunarfulltrúa í hlutastarfi, hefur nú verið ráðin í 100% starf. Í frétt frá SASS segir að reynslan hafi leitt í ljós að verkefnin séu næg og full þörf á heilu stöðugildi til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem liggja fyrir í sveitarfélaginu.

Öflugur hluti af teymi SASS
Samningurinn markar tímamót þar sem fyrirkomulagið verður nú með sama sniði og í Rangárþingi og Uppsveitum Árnessýslu.

Með þessu móti nýtur starfsmaðurinn enn frekar stuðnings, ráðgjafar og tengslanets samtakanna samhliða því að vinna að sértækum hagsmunamálum Skaftárhrepps.

Fyrri greinSuðurland leiðir vöxt heildaratvinnutekna á landsvísu
Næsta greinÁsa Lind íþróttamaður Hveragerðisbæjar 2025