Nýr samningur sparar milljónatugi

Nýr samningur um lægri leigu á íþróttamannvirkjum í Þorlákshöfn sparar sveitarfélaginu Ölfusi tugi milljóna króna á ári og lækkar skuldbindingar sveitarsjóðs um ríflega 100 milljónir króna.

Sveitarfélagið er aðili að Fasteign ehf sem fjármagnaði byggingu íþróttamiðstöðvarinnar samkvæmt samningi sem gerður var árið 2007 og fól í sér fjárfestingu fyrir nærri 800 milljónir króna á þáverandi verðlagi.

Gunnsteinn Ómarsson sveitarstjóri segir að með lækkuninni nú lækki gjaldaliður sveitarsjóðs verulega og uppreiknað sparist tugir milljóna miðað við fyrri ár. Þessi niðurstaða hefur góð áhrif á ársreikninga síðasta árs en rekstur sveitarsjóðs var jákvæður um liðlega 200 milljónir fyrir árið 2012 og rekstur A- og B hluta varð jákvæður um 236 milljónir króna.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinÞórir meistari í Póllandi
Næsta greinFuglaskoðun í friðlandinu