Nýr ráðherra heimsótti Matvælastofnun

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heimsótti höfuðstöðvar Matvælastofnunar á Selfossi á föstudag.

Með í för voru Jóna Sólveig Elínardóttir, þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi, Ólafur Friðriksson, skrifstofustjóri og Páll Rafnar Þorsteinsson og Guðmundur Kristján Jónsson, aðstoðarmenn ráðherra.

Í heimsókninni gafst ráðherra tækifæri til að kynnast starfsfólki Matvælastofnunar og starfsemi hennar. Fundað var með yfirstjórn stofnunarinnar um skipulag og helstu verkefni og farið yfir þróun mála og þau mörgu verkefni sem flust hafa til Matvælastofnunar frá því að hún hóf störf 1. janúar 2008.

Þá var rætt um ný lög um stofnunina sem nú er unnið að og þar sem fjallað verður um hlutverk, skipulag og verkefni, ásamt heimildum og skyldum í upplýsingargjöf.

Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi stofnunarinnar á sviði neytendaverndar og dýraheilsu og að hún hafi frumkvæði að upplýsingagjöf um mál sem varða hagsmuni neytenda og velferð dýra.

Fyrri greinSelfoss gaf eftir í seinni hálfleik
Næsta greinLyftingadeild Umf. Selfoss endurvakin