Nýr plöntusjúkdómur greindist á Suðurlandi

Undir lok síðasta árs kom upp sjúkdómur í rósaplöntum í gróðurhúsi á Suðurlandi. Við nánari rannsókn greindist bakteríutegundin Ralstonia solanacerum í rósunum og er það í fyrsta sinn sem bakterían greinist á Íslandi.

Skaðvaldurinn er baktería sem barst til landsins með innflutningi á rósagræðlingum frá Hollandi síðasta sumar. Bakterían herjar á ýmsar plöntutegundir og getur valdið miklum afföllum í m.a. kartöflu- og tómatarækt.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að í kjölfar greiningarinnar hafi stofnunin gripið til varúðarráðstafana, í samráði við ræktanda og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, til að hefta útbreiðslu smits. Plöntum hafði ekki verið dreift frá gróðrarstöðinni frá því að innflutningur átti sér stað, aðrar en sótthreinsaðar rósir til verslana. Bakterían hefur ekki greinst í sýnum sem hafa verið tekin eftir að sýktum plöntum var eytt og telur stofnunin líklegt að tekist hafi að uppræta sjúkdóminn að fullu þótt ekki sé hægt að fullyrða um það á þessu stigi málsins.

Í Hollandi varð fyrst vart við sjúkdóminn í september sl. Þegar voru gerðar ráðstafanir þar og eru ekki taldar líkur á að sjúkdómurinn hafi borist hingað með fleiri sendingum.

Þessi bakteríutegund er skilgreind í reglugerð sem skaðvaldur sem bannað er að flytja til landsins. Kartafla er helsti hýsill bakteríunnar en hún getur einnig sýkt aðrar plöntur. Sýkingin lýsir sér þannig að leiðslukerfi plöntunnar stíflast af bakteríunum og laufblöð byrja að visna neðst á sýktum plöntum og færist sýkingin svo ofar með þeim afleiðingum að plantan veslast upp.

Fylgst verður áfram með framvindu mála en greining þessa sjúkdóms ítrekar mikilvægi árvekni til að standa vörð um plöntuheilbrigði í landinu. Matvælastofnun bendir á að tilkynna skal tafarlaust til stofnunarinnar um minnsta grun um sýkingu í gróðurhúsum.

Fyrri greinPétur ráðinn slökkviliðsstjóri
Næsta greinSr. Axel sinnir þjónustu í Hveragerði