Nýr og uppfærður vefur Safe Travel tekin í notkun

Ljósmynd/Landsbjörg

Lilja Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra, opnaði formlega í dag nýjan vef Safe Travel í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að mikilli uppfærslu á vefnum og samsvarandi smáforriti. Fyrir utan útlitsbreytingu hefur allur texti á vefnum verið gerður hnitmiðaðri og auðlesnari.

Einfaldara verður fyrir ferðafólk að skrá ferðaáætlun sína á vefnum og reyna að standa við hana því ef aðstandendur heima telja að eitthvað hafi komið fyrir viðkomandi, þá er hægt að grennslast fyrir á þeim stöðum sem viðkomandi sagðist ætla á, t.d. gististöðum.

„Nú þegar stefnir í að fjöldi erlendra ferðamanna muni leggja leið sína að gosstöðvunum við Litla Hrút, er tilvalið að við Íslendingar hvetjum það ferðafólk sem við komumst í snertingu við, til að skilja eftir ferðaáætlun á Safetravel.is áður en það leggur af stað á gosstöðvar og skrá farsímanúmerið sitt í að fá viðvaranir í SMS,“ segir í tilkynningu frá Landsbjörgu. Á heimasíðunni verða líka uppfærðar upplýsingar um gosið, aðstæður á svæðinu og góð ráð um aðkomu, klæðnað og fleira.

Smáforritið gefur upplýsingar um færð á vegum í rauntíma. Þar er líka hluti fyrir göngufólk sem gerir fólki kleift að senda GPS staðsetningu sína handvirkt til neyðarlínunnar með sms.

Fyrri greinÖlfusárbrú lokuð aðfaranótt fimmtudags
Næsta greinLestir og brestir í Strandarkirkju