Nýr og betri sunnlenska.is

Nýr vefur sunnlenska.is fer í loftið í dag en vefurinn hefur fengið gagngera andlitlyftingu og er nú mun aðgengilegri á snjalltækjum.

Þetta er fyrsta stóra breytingin á vefnum frá því hann fór í loftið þann 8. apríl 2010. Vefurinn hefur verið færður úr Vivvo CMS kerfinu yfir í WordPress, sem er stærsta vefumsjónarkerfi heims, en 32% allra vefsíðna í heiminum í dag keyra á WordPress. 

Mikilvægasta breytingin er þó sú að vefurinn skalast nú niður á öll tæki og því er mun auðveldara að skoða hann í snjalltækjum, en þess má geta að rúmlega 60% heimsókna á vefinn koma í gegnum snjallsíma og spjaldtölvur.

Vefurinn er nú á https sem þýðir aukið öryggi hvað varðar samskipti milli vafra notenda og vefsins en sú krafa er komin á í dag að vefsíður séu með svokallað SSL skírteini uppsett.

Það var Grétar Magnússon hjá TRS á Selfossi sem hafði umsjón með hönnun nýja vefsins en vefurinn er hýstur hjá TRS í einum öruggasta hýsingarsal landsins.

Allt eldra efni sunnlenska.is er aðgengilegt á nýja vefnum en alls voru fluttar um það bil 19.000 fréttir, ásamt öllum myndum, frá gamla vefnum yfir í nýja kerfið.

Við vonum að þessi breyting gleðji dygga lesendur okkar sem fagna því eflaust margir að geta nú skoðað vefinn fyrirhafnarlaust í snjalltækjum. Sunnlenska.is verður áfram leiðandi sunnlenskum fréttaflutningi en vikulegir notendur vefsins eru um 8.000 talsins.

Fyrri greinTónleikhús fyrir alla fjölskylduna
Næsta greinÞyrfti að gera meira af því að liggja í leti