Nýr lyfsali á Selfossi

Guðrún Lind Rúnarsdóttir hefur tekið við lyfsöluleyfi í apóteki Lyfja og heilsu í Kjarnanum á Selfossi.

Hún tekur við lyfsöluleyfinu af Ingimundi Pálssyni en undir apótekinu á Selfossi starfa lyfjaútibú á Hellu og Hvolsvelli.

Guðrún, sem er menntaður lyfjafræðingur, hefur starfað hjá Lyfjum og heilsu á Selfossi í rúmt ár en hún segir nýja starfið leggjast mjög vel í sig. “Ég er með gott starfsfólk með mér og hlakka til að takast á við þetta nýja hlutverk með þeim. Það er líka gaman að taka við svona rótgrónu apóteki og halda við okkar góða starfi og sjá hvort við getum ekki betrumbætt okkur á öðrum sviðum,” sagði Guðrún Lind í samtali við sunnlenska.is.

Guðrún er frá Jórvík í Sandvíkurhreppi og býr á Selfossi ásamt eiginmanni sínum og tveggja ára dóttur.