Nýr leikskóli mætir mikilli þörf

Nú er verið að ljúka hönnun á nýjum sex deilda leikskóla sem rísa á í Hveragerði. Um er að ræða um eittþúsund fermetra byggingu, sem verður ysta húsið í bænum, á svæði fyrir neðan Heiðarbrún.

Skólinn mun hýsa um 130 börn. Ætlað er að byggingu hans verði lokið fyrir vetrarbyrjun 2017.

Með því að ráðast í slíka byggingu er ætlunin að bjóða upp á leikskólapláss fyrir börn frá tólf mánaða aldri, þ.e. mun yngri en áður hefur verið boðið uppá að hálfu bæjarins.

„Þarna er verið að reyna að minnka þörf fyrir dagforelda, sem er bæði dýrari lausn fyrir foreldrana og staðreyndin er sú að hér hefur lítið gengið að fá fólk til að starfa sem dagforeldri,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í samtali við Sunnlenska. Bendir hún á að sem stendur vanti hið minnsta tvo dagforeldra til starfa til að sinna þeirri þörf sem er til staðar.

„Ég biðla til þeirra sem hafa áhuga á að taka upp það ágæta starf að láta verða af því,“ segir Aldís.

Hún óttast að ef ekki rætist úr verði einhverjir foreldrar í vandræðum með daggæslu á börnum sínum á meðan þeir sækja vinnu. „Við höfum brugðist við því og samþykkt allar umsóknir frá fólki sem hefur getað komið börnum sínum í daggæslu í öðrum sveitarfélögum,“ segir hún og á þar við styrkveitingar vegna útlagðs kostnaðar foreldra, sem margir hverjir taka með sér börnin til Reykjavíkur eða á Selfoss þar sem viðkomandi foreldri vinnur, og hafa komið börnunum að hjá daggæslufólki þar.

Aðspurð um ástæður þess að illa gengur að manna stöður dagforeldra í Hveragerði segir Aldís að sennilega megi rekja það til þess að konur hafi í gegnum tíðina haft greiðan aðgang að vinnu þar í bæ og því hefur það áhrif á ýmsar starfstéttir.