Nýr klippubúnaður í Þorlákshöfn

Brunavarnir Árnessýslu hafa fengið nýjan björgunarbúnað til að losa fólk úr bílum og fleiri aðgerða. Um er að ræða Holmatro Core búnað af nýjustu gerð.

Búnaðurinn samanstendur af klippum, glennara, tjakki, tveimur dælum, slöngum, sílsaklossa og kubbum. Tækin eru sérstaklega sterk og ætluð m.a. til að ráða við stór vinnutæki og þunga hluti.

Klippurnar klippa með 104 tonna átaki og glennur lyfta 21 tonna afli.

Búnaðurinn allur kostar 8,5 milljónir króna en nýja settið verður staðsett í slökkvibílnum í Þorlákshöfn og eru slökkviliðsmenn þar þegar byrjaðir að æfa meðferð á tækjunum.

Með tilkomu þessara tækja eykst til muna öryggi íbúa og vegfarenda í Ölfussi og Árnessýslu allri. Til dæmis er ekki síst verið að horfa til umferðaaukningar um Suðurstrandaveg.

Samkvæmt reglugerð um starfsemi slökkviliða þá eiga að vera klippur í öllum útkallsbílum slökkviliðs, átta bílar slökkviliðs BÁ eru með klippubúnaði eða í öllum átta stöðvum liðsins í sýslunni.

Fyrri greinTímamót í notkun seyru til landgræðslu
Næsta greinLjúfir kærleiksmolar