Nýr geisladiskur og frítt í jóga

Jógastöðin á Selfossi hóf sitt ellefta starfsár í haust. Nýverið gaf Jógastöðin út geisladisk með jóga nídra djúpslökun en jóga nídra hefur stundum verið kallaður jógískur svefn.

Geisladiskurinn inniheldur bæði langa og stutta útgáfu af jóga nídra. Að auki inniheldur hann hugleiðslu með orkustöðvunum.

Í tilefni útgáfu disksins verður frítt í jóga nídra á morgun, fimmtudaginn 2. október.

„Ég er afar stolt af þessum geisladiski en hann var tekinn upp hjá Labba í Tónverki á Selfossi. Labbi sá jafnframt um tónlistina á disknum,“ segir Rósa Traustadóttir, jógakennari og eigandi Jógastöðvarinnar.

„Hægt er að nálgast diskinn í Jógastöðinni, einnig sendi ég hann um allt land. Í tilefni af útgáfu disksins verður boðið upp á frían tíma í jóga nídra fimmtudaginn 2. október kl. 17:15. Þar verður einnig hægt að kaupa diskinn og skrá sig á nýtt námskeið í jóga nídra sem hefst þriðjudaginn 7. október kl. 20,“ segir Rósa.

Sem fyrr segir er þetta ellefta starfsár Jógastöðvarinnar og segir Rósa að margir hafi verið með frá upphafi. „Jóga verður ákveðinn lífstíll með reglulegri ástundun. Allir geta stundað jóga og er enginn of gamall fyrir jóga,“ segir Rósa.

„Jógaæfingar styrkja stoðkerfi líkamans, sérstaklega bakið og hrygginn og hafa fyrirbyggjandi áhrif á vöðvabólgu og verki. Jóga jafnar brennslu líkamans, eykur orku, bætir svefn og þér líður almennt betur. Er eftir einhverju að bíða?“ spyr Rósa að lokum.

Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Jógastöðvarinnar.

Fyrri greinStockton í liði ársins
Næsta greinÓskaland fékk hjól að gjöf