Nýr formaður ungra bænda

Aðalfundur Félags ungra bænda á Suðurlandi var haldinn í Gamla fjósinu á Hvassafelli undir Eyjafjöllum fyrir skömmu. Á fundinum var fámennt en góðmennt.

Á dagskránni voru almenn aðalfundarstörf. Stefán Geirsson, fráfarandi formaður, fór yfir starf síðasta árs en þar ber helst að nefna þátttöku FUBS í Sunnlenska sveitadeginum, skemmtikvöld og keppnina um unga bónda ársins sem haldin var á Hrafnagili í ágúst.

Í lok fundar var gengið til kosninga. Stefán og María Þórunn Jónsdóttir, ritari, gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Kjörnar voru Guðfinna Lára Hávarðardóttir í Birtingaholti í formannsembætti og Jóna Þórunn Ragnarsdóttir á Selfossi sem ritari. Með þeim í stjórn er Bjarni Ingvar Bergsson á Viðborðsseli í Hornafirði, gjaldkeri félagsins.

Fyrri greinSextíu sóttu um starf umhverfisfulltrúa
Næsta greinInnbrot og hnupl í dagbók lögreglu