Nýr 716 fermetra veitingasalur

„Þetta verður einn glæsilegasti veitingasalur Suðurlands og þó víðar væri leitað enda verður ekki sparað í neinu, þarna verður allt 100% og miklu meira en það.“

Þetta segir Ólafur Laufdal, veitingamaður í Grímsborgum í Grímsnesi. Þar er fyrirhugað að reistur verði veitingasalur, alls 716 fermetrar að stærð með sæti fyrir 200 gesti og mun hann fullbúinn kosta 200 til 250 milljónir króna að sögn Ólafs.

Fyrirtækið Kvistfell mun byggja en salurinn verður tilbúinn í júlí í sumar. Þá er Ólafur að ljúka við nýtt hús með fjórtán herbergjum, sem verður tilbúið í apríl.

„Þegar nýja húsið er komið í gagnið verðum við með gistingu fyrir 120 manns,“ segir hann. Að sögn Ólafs starfa nú sautján manns í Grímsborgum en í sumar verða starfsmennirnir um þrjátíu talsins.