Nýr 200 fermetra pallur og HM í beinni

„Við vorum að taka í notkun nýjan og glæsilegan tæplega 200 fermetra sólpall við anddyri hótelsins þar sem gestir okkar og aðrir geta sleikt sólina og notið lífsins og um leið keypt veitingar af okkur.

Þá stendur til að byggja svipaðan pall Ölfusármegin við hótelið þar sem útsýnið verður frábært,“ segir Jónas Yngvi Ásgrímsson, markaðsstjóri Hótels Selfoss aðspurður um nýja sólpallinn, sem hefur verið tekin í notkun við hótelið. Það er Baldur Eiðsson, smiður og hans starfsmenn, sem eiga heiðurinn af smíði pallsins.

70 starfsmenn í sumar
„Bókanir eru mjög fínar í sumar en 90% okkar gesta á þessum árstíma eru erlendir ferðamenn. Við erum með um 70 starfsmenn í vinnu þannig að hér er allt á fullu. Þá höfum við tekið hótelið í gegn, málað, sett ný húsgögn inn í herbergin og skipt út húsgögnum á Riverside svo eitthvað sé nefnt,“ bætir Jónas Yngvi við þegar hann var spurður út í bókanir og fleira varðandi hótelið.

HM í beinni
Hótel Selfoss hefur sett upp HM stofu í 80 manna sal á móts við Riverside Spa þar sem allir leikirnir verða sýndir á risa tjaldi og í salnum er splunkunýr bar. „Við ætlum að mynda hér skemmtilega stemming á HM og hvetjum allt knattspyrnufólk til að mæta og fylgjast með leikjunum, við lofum góðri stemmingu,“ segir Jónas Yngvi.

Fyrri greinStokkseyringar komust ekki á flug
Næsta greinHráfæði karamellu- og súkkulaðisælu molar