Nýliðið ár hagstætt Hekluskógum

Árið 2014 var hagstætt gróðri á Hekluskógasvæðinu enda nokkuð hlýtt og rakt. Verkefnið heldur áfram af fullum krafti á nýju ári og er reiknað með að gróðursettar verði um 250 þúsund birkiplöntur í sumar.

Árangur verkefnisins er víða mjög góður og sjást nú birkireitir spretta upp þar sem fyrir 10-20 árum var örfoka land.

Yfir 2,3 milljónir plantna
Gróðursettar voru 312 þúsund plöntur árið 2014, þar af um 307 þúsund af birki og 5 þúsund af reyniviði. Enn fremur var dreift 175 tonnum af kjötmjöli til uppgræðslu. Verktakar gróðursettu tæplega 180 þúsund plöntur, en landeigendur auk ýmissa sjálfboðaliða gróðursettu rúmlega 130 þúsund.

Var gróðursett víðs vegar um Hekluskóga með mestri áherslu á á uppgrædd svæði í norðurhlutanum, en landeigendur sáu um mestan hluta gróðursetningarinnar í eigin lönd á sunnanverðu starfsvæðinu.

Er heildarfjöldi gróðursettra trjáplantna frá árinu 2006 til og með 2014 kominn yfir 2,3 milljónir á um 1.200 hekturum lands sem skiptist í um 850 trjálundi.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hekluskóga.

Fyrri greinRagnheiður og Guðrún heiðraðar
Næsta greinBelgingur hefur opnað nýjan veðurvef