Nýjasta mynd Gríms fer til Cannes

Hrútar, nýjasta kvikmynd Gríms Hákonarsonar, kvikmyndagerðarmanns frá Vorsabæ í Flóa, hefur verið valin til þátttöku í Un Certain Regard keppni Cannes kvikmyndahátíðarinnar.

Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í París í dag þar sem kynntar voru þær myndir sem eru hluti af Cannes Official Selection í ár.

Cannes kvikmyndahátíðin er ein allra stærsta og virtasta kvikmyndahátíð heims, svokölluð „A“ hátíð, og því er um gífurlegan heiður að ræða fyrir aðstandendur myndarinnar. Hátíðin mun fara fram frá 13. – 24. maí. Um er að ræða heimsfrumsýningu myndarinnar. Af um fjögurþúsund myndum sem sóttu um komust aðeins tuttugu að og munu keppa um aðalverðlaunin „Prix Un Certain Regard.“

Hrútar fjallar um tvo sauðfjárbændur á sjötugsaldri, bræðurna Gumma og Kidda, sem búa hlið við hlið í afskekktum dal á Norðurlandi. Fjárstofn þeirra bræðra þykir einn sá besti á landinu og eru þeir margverðlaunaðir fyrir hrútana sína. Þrátt fyrir að deila sama landi og lífsviðurværi þá hafa bræðurnir ekki talast við í fjóra áratugi. Þegar riðuveiki kemur upp í dalnum grípur um sig mikil örvænting á meðal bændanna þar. Yfirvöld ákveða að skera niður allt sauðfé til þess að sporna við útbreiðslu sjúkdómsins. Bræðurnir standa frammi fyrir því að missa það sem er þeim kærast og grípa til sinna ráða.

Tökur fóru fram á bæjunum Mýri og Bólstað, sem staðsettir eru hlið við hlið í Bárðardal á Norðurlandi.

Grímur Hákonarson leikstýrir og skrifar handritið að Hrútum. Með aðalhlutverk fara Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson.

Grímur hefur starfað við kvikmyndagerð í tæpa tvo áratugi og hefur t.a.m. gert stuttmyndirnar Slavek the Shit og Bræðrabyltu, sem báðar ferðuðust víðsvegar um heiminn á kvikmyndahátíðir og unnu til fjölda verðlauna. Hrútar er önnur kvikmynd hans í fullri lengd en sú fyrsta, Sumarlandið, kom út árið 2010. Þá hefur hann getið sér góðs orðs sem leikstjóri heimildamynda þar sem hann hefur m.a. gert Varði Goes Europe, Hreint hjarta og Hvellur.

Fyrri grein„Ég er í sjokki!“
Næsta greinEitt stærsta fjós landsins mun rísa í Gunnbjarnarholti