Nýjar sunnlenskar rófur komnar í verslanir

Nú í vikunni komu á markað nýjar íslenskar rófur frá Hrauni í Ölfusi. Óhætt er að segja að eftirvæntingin hafi verið mikil þar sem íslenskar rófur hafa verið ófáanlegar um þó nokkurt skeið á landinu.

„Þessi fyrsta uppskera lítur vel út, enda hef ég vökvað reglulega. Hins vegar er þurrkurinn farinn að hafa veruleg áhrif á sprettuna þar sem ekki er vökvað og horfir því ekki vel með framhaldið ef ekki rætist úr fljótlega,“ sagði Hrafnkell Karlsson bóndi á Hrauni í samtali við sunnlenska.is.