Nýjar loftmyndir af Suðurlandi komnar í kortasjá

Selfoss.

Nýjar loftmyndir voru teknar á Suðurlandi síðastliðið sumar. Myndirnar hafa nú verið birtar á kortasjám sveitarfélaganna sem hægt er að nálgast frá heimasíðu þeirra.

Í kortasjánni er einnig hægt að finna upplýsingar um ýmsa þjónustu og afþreyingu eins og sundlaugar, örnefnaskrá og tjaldsvæði svo eitthvað sé nefnt.

Þá er hægt að sjá eldri loftmyndir og sjá hvernig byggð hefur þróast. Það er gert með því að velja tímaflakk en elstu myndirnar eru frá árinu 1958.

Að þessu sinni voru nýjar loftmyndir teknar af Eyrarbakka, Stokkseyri, Flúðum, Hellu, Höfn, Hvolsvelli, Kirkjubæjarklaustri, Selfossi, Skógum, Þorlákshöfn og Þykkvabæ auk þess sem myndir af stórum svæðum í dreifbýli voru endurnýjaðar.

Loftmyndir ehf. er eina fyrirtækið á landinu sem á og rekur sérhæfðan búnað til að taka loftmyndir af stórum landsvæðum úr flugvél. Fyrirtækið sérhæfir sig í loftmyndatöku, gerð myndkorta og landlíkana sem og uppsetningu og rekstri vefkortalausna auk skyldra verkefna.

Allar loftmyndir eru teknar úr flugvél og getur fyrirtækið boðið upp á loftmyndatöku allt árið með stuttum fyrirvara. Frá árinu 1996 hafa Loftmyndir árlega tekið myndir í eigið safn. Í safninu eru nú til myndir af öllu Íslandi og tímaseríur af ýmsum svæðum.

Þá halda Loftmyndir ehf. úti þrívíddarvef af landinu öllu en fyrirtækið hefur síðastliðin 28 ár safnað saman þrívíðum hæðargögnum. Ótal landmældir grunnpunktar eru notaðir til að staðfesta hæðir og brotlínur teiknaðar í þrívíðum tölvubúnaði til að draga fram þrengstu gil og skorninga. Gögnin sem hægt er að skoða koma úr þessum hæðargrunni og loftmyndirnar síðan lagðar ofan á hæðarlíkanið. Útkoman er hágæða landlíkan sem nær yfir allt landið.

Fyrri greinML í sjónvarpið eftir 29 ára hlé
Næsta greinFjölmenningarráðin funda um næstu hátíð